Hvað þarf verslun að gera til þess að fá viðurkenninguna Ábyrg verslun?
- Verslunin þarf að hafa innleitt viðurkennt aldurssannprófunarkerfi sem kemur í veg fyrir sölu á tóbaks- og nikótínvörum til ungmenna.
- Verslunin þarf að hafa tilsett smásöluleyfi fyrir tóbaks- og nikótínvörum.
- Tóbaks- og nikótínvörur skulu ekki vera sýnilegar viðskiptavinum, nema verslunin sé skilgreind sem sérverslun.
- Verslunin selur einungis vörur sem hafa verið samþykktar af eftirlitsstofnun ríkisins og eru framleiddar fyrir íslenskan markað.
Aldurssannprófunarkerfi
Aldurssannprófunarkerfi er stafrænt kerfi sem staðfestir að viðskiptavinur hafi náð tilsettum aldri við kaup á tóbaks- og nikótínvörum. Kerfið hindrar afgreiðslu á tóbaks- og nikótínvörum ef aldur hefur ekki verið sannprófaður af viðskiptavini. Mögulegt er að sannprófa aldur með rafrænum skilríkjum eða með því að skanna inn gild persónuskilríki.
Smásöluleyfi
Verslun sem selur tóbaks- eða nikótínvörur skal hafa í gildi leyfi til sölu á vörunum í smásölu eða í sérverslun. Tóbakssöluleyfi eru gefin út af heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna. Nikótínsöluleyfi er gefið út af HMS. Leyfi gilda í fjögur ár í senn.
Sýnileiki
Samkvæmt lögum skal tóbaks- og nikótínvörum vera komið þannig fyrir á smásölustöðum að vörurnar séu ekki sýnilegar viðskiptavinum. Sérverslunum er heimilt að hafa vörur sýnilegar þegar inn í verslunina er komið. Almennar verslanir þurfa því að geyma vörurnar úr augsýn viðskiptavina.
Samþykktar vörur
Ábyrgar verslanir hafa einungis til sölu þær tóbaks- og nikótínvörur sem hafa verið samþykktar af eftirlitsaðila ríkisins og eru framleiddar fyrir íslenskan markað. Sala á endurmerktum vörum sem upprunalega eru ætlaðar erlendum mörkuðum fellur ekki undir Ábyrga verslun. Tóbaks- og nikótínlög eru mismunandi milli landa. Á Íslandi gilda ströng lög um innihaldsefni, nikótínstyrk og upplýsingakröfur á umbúðum tóbaks- og nikótínvara. Með þessu er öryggi og gæði varanna tryggt og að aðeins séu seldar vörur sem samræmast íslenskri löggjöf.